Kun For Mig

Það er kominn febrúar. Mér hefur alltaf fundist það vera leiðinlegasti og kaldasti mánuður ársins.

Hitastigið hérna í borginni hefur lítið breyst, þó svo að það hafi dottið eitthvað aðeins niður fyrir frostmark um helgina. Mér finnst þetta stórfurðulegt, því að ég er vön að sjá mikinn snjó og vera voða voða voða kalt svona rétt eftir jólin. En mér er bara kalt, og það næsta sem maður kemst að snjó er það litla sem maður þarf að skafa af bílnum. Sem sagt, ekkert til að grenja yfir.

Maður var ekki lengi að komast inn í önnina í þetta skiptið. Fjórir skiladagar liðnir, sem er alveg þrír fleiri en á síðustu önn. Svo voru líka tvær vísundaferðir, önnur í Landsvirkjun og hin í ameríska sendiráðið, og já, ég fór í þær báðar. Það stendur líka til að fara í eina vísundaferð á föstudaginn, og heimildir herma um auka vísundaferð, strax eftir þá fyrri á föstudaginn, og hver veit nema maður skellir sér á hana líka. Þetta er ágætt líf, að vera í enskunni.

Ég held að ég verði að vera duglegri að skrifa á bloggið, bara svo að ég geti haldið uppi íslenskunni. Mér finnst ég fara alveg hryllilega illa með orðin mín, og ég á erfitt með að sletta ekki úr enskunni. 99% af því sem ég skrifa þessa dagana er á ensku, og þó svo að það sé ekkert slæmt, þannig séð, þá kemur það niður á íslenskunni.

Ég hef samt voða lítið að segja. Það gengur vel að halda áramótaheitin, eða svona nokkurn vegin.

19. febrúar ætla ég á tónleika með Emiliönu Torrini. Ég hlakka klikkað til. Svo 8. mars ætla ég að bruna austur í klippingu og smá vinkonu hitting hjá Herdísi. Ég hlakka líka klikkað til þess, ef ekki meira.

Ég kvíði fyrir sumrinu, þó svo að ég reyni að hugsa ekki of mikið um það svona snemma. Það er verið að stokka upp í safninu og ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Það er kominn nýr framkvæmdastjóri, það verða væntanlega engir sjálfboðaliðar, og svo lítur út fyrir að ég verði næst á eftir framkvæmdastjóranum í goggunarröðinni. Þetta er reyndar allt óstaðfest (nema nýi framkvæmdarstjórinn, það er búið að ráða hann) og ég bara bíð eftir því að einhver úr stjórninni, eða framkvæmdarstjórinn sjálfur, hafi samband við mig beint og tali ekki bara við pabba minn um þessi mál. Ég hugsa samt að þetta skýrist allt í lok febrúar, byrjun mars. Eins og ég segi, það er engin ástæða til að stressa sig yfir þessu akkúrat núna.

Ég held ég láti þetta duga í bili.

Published in: on February 1, 2010 at 15:57  Comments (8)  

Bliss

Þó svo að ég hafi ekki verið neitt voða dugleg að blogga þetta árið, þá held ég að ég geri smá annál í tilefni þess að það er að verða búið.

Árið byrjaði alveg nógu vel, ég byrjaði að nema sálfræði við HA og þó svo að það hafi verið pínu hræðilegt til að byrja með, þá var það bara spennandi. Að venju byrjaði ég námið mjög dugleg, las fullt í bókunum mínum og gerði verkefnin langt áður en átti að skila þeim. En núna þegar ég les yfir færslur frá fyrri part ársins, þá sé ég alveg greinilega hvernig allt sem ég lærði á síðustu önn hefur gjörsamlega lekið út. Þetta endaði svo með því að vera pínu hræðilegt, þ.e. frekar ömurlegt. Ég hugsa að ef ég hefði farið spennt í þetta nám, og ekki verið jafn upptekin við það sem hefði getað verið, þá hefði ég örugglega lagt meira á mig og mér hefði gengið betur. En ég stórlega efast um að ég hefði viljað halda áfram í þessu hvort eð er.

Eitthvað fór félagslífið í HA alveg framhjá mér, í minningunni þá finnst mér eins og ég hafi ekki gert neitt annað en að hanga í stóra rúminu mínu á Akureyri. Ég fór í eina vísindaferð til Reykjavíkur sem var eitt stórt fail. Ég man ekki eftir að hafa djammað neitt fyrr en einmitt MA hittingurinn var þarna í kringum júbileringu.

Ég pældi mikið í lýðháskóla í upphafi ársins, en endaði á því að útiloka of marga skóla. Ef ég hefði svo endað á því að fara í svoleiðis þá hefði ég gjörsamlega rústað þessum vetri held ég. Ég er eiginlega mjög fegin að það varð ekkert úr því.

Á einhverjum tímapunkti datt ég inn í Twilight bækurnar og þó svo að ég hafi svolítið skiptar skoðanir yfir þessum bókum þá er ég mjög ánægð með það að hafa lesið þær. Bækurnar hafa hjálpað mér að átta mig á því hvað ég vil gera þegar ég verð stór. Þær líka fengu mig til að lesa meira, en ég bara eiginlega skil ekki hvernig mér tókst að lesa svona lítið þegar ég var í MA. Hvað gerði ég eiginlega við tímann?

28. febrúar fékk ég mér nýtt tattoo, þ.e. nöfnin af eldri frændum mínum tveim, á ökklann. Núna þarf ég bara að fara að bæta Hartmanni í safnið, það gerist væntanlega fyrir sumarið. Ég þarf bara að ákveða hvort ég vilji frekar hafa Hartmann eða Völund á ökklanum.

7. apríl kom svo Hartmann Völundur í heiminn, eftir alveg dágóða bið. Hann virðist samt ekkert láta bíða eftir sér núna, þar sem hann er búinn að vera rosalega duglegur að stækka og læra hluti. Verst er að ég hef ekki séð kútinn síðan í ágúst, og hann er búinn að stækka svo mikið og er miklu meiri félagsvera en hann var í þá daga. Þetta bara gengur ekki. Þess vegna hef ég ákveðið að kíkja norður í nokkra daga eftir að ég kem heim frá Danmörku.

Sumarið var eitt besta sumar sem ég hef átt hingað til, amk síðan ég byrjaði að vinna. Ég kynntist alveg fullt af frábæru fólki og mér leið bara mjög vel á Hvalasafninu. Júbileringin var æðisleg og svo voru allir litlu frændur mínir staðsettir á Íslandi í alveg einn og hálfan mánuð. Svo var ættarmót og útilegur og bara almennt séð góð stemning í sumar. Ég vona bara að næsta sumar verði jafn gott.

Eitt það sem er mest áberandi við bloggið mitt þetta árið eru allir draumarnir. Mig dreymir alltaf svo rosalega mikið og oft festast þeir svo í hausnum á mér og valda mér miklum hugarangri. Ég held samt að ég haldi áfram að skrifa draumana svona niður, því það er frekar gaman að lesa yfir þá aftur. Draumar geta verið mjög áhugaverðir.

Í haust lá leið mín suður í enskudeild Háskóla Íslands. Því meira sem ég pæli í sumum áföngunum sem eru í boði á þessar braut, því vissari er ég að maður fær ekki alveg bestu kennsluna í HÍ. En ég hef ætlað mér að gera það besta úr því, ég mun halda áfram þennan vetur og þann næsta, og klára svo B.A.ið í skiptinámi þar sem maður ætti að fá betri kennslu. Ég er bara svo snobbuð stundum. Jújú, mér finnst ég hafa lært eitthvað í sumum áföngunum, en ekki eins mikið í öðrum. Það er líka bara pínu kjánalegt að læra ensku á Íslandi, mér hefur alltaf fundist það og mun örugglega alltaf finnast það. Tala nú ekki um þegar manni finnst maður standa svo miklu framar í ensku kunnáttu en kennarinn sjálfur. Kennari sem er með PhD í enskum barnabókmenntum. En jú, ef maður fer í bókmenntir þá ætti maður ekki að þurfa að tala ensku, right? Æji, eins og ég segi, ég er snobbuð þegar það kemur að ensku.

Ég er búin að hugsa það allt árið hvað 2009 hefur verið leiðinlegt ár og hvað ég hlakki til að það verði búið, en þegar ég horfi til baka þá er það bara alls ekki satt. Í rauninni voru það bara fyrstu mánuðirnir sem voru ömurlegir. Restin hefur bara verið frekar góð. Ég er búin að uppgötva margt um sjálfa mig, ég er búin að gera margt sem ég er stolt af, og ég get ekki annað en verið bjartsýn á framtíðina. Næstu tvö ár eru svona nokkurn vegin plönuð, og svo fljótlega þarf ég að fara að pæla í því hvernig ég ætti helst að snúa mér til að ná markmiðum mínum fyrir framtíðar starfsáætlanir.

Á næsta ári ætla ég að:

 • drekka minna kók og pepsí
 • fara í fleiri vísundaferðir
 • vera duglegri að skrifa, hvort sem það verður fyrir bloggið eða annað
 • tala við fleira fólk
 • lesa fleiri bækur
 • vera duglegri að læra
 • og bara hafa gaman…

Published in: on December 28, 2009 at 21:07  Comments (3)  

True Colors

En einn draumurinn. Það tókst eitthvað illa að sofa í nótt, ég vaknaði oft, með stuttu millibili og endaði svo á því að geta ekki sofnað aftur klukkan hálf 4. Frábært. En mig dreymdi þrjá drauma í nótt og allir áttu eitt sameiginlegt, en ég segi frá því síðar.

Fyrst, mig dreymdi að Inga kæmi inn í herbergið mitt og byrjaði að segja eitthvað, uppgötvaði svo að þetta var ég, þannig að hún snéri sér við og snéri sér að mömmu sinni (sem var hérna hjá okkur, greinilega) og sagði, “það er komið barn.” Svo gat hún sagt mér það hið sama. Þær mæðgur komu svo inn í herbergið mitt, þar sem ég var í rúminu, ber að ofan og djöfull var það eitthvað óþægilegt að hafa þær þarna. Ég náttúrulega bara hélt mig undir sænginni fyrst þær voru hjá mér, en það var erfitt út af því að ég vildi strjúka svarta kettinum sem var þarna hjá mér. Barnið sem var ‘komið’ er sem sagt barnið sem Silja (stelpa úr MA) er að bíða eftir.

Ég man takmarkað eftir draum tvö, nema að ég var að tala við einhvern strák sem bara brosti að mér þegar ég var að tala. Eitthvað snérist samtalið um hvað það væri ómögulegt að líka vel við mig, þar sem ég væri svo frek og sjálfselsk. Ég spurði af hverju hann brosti svona og hann kyssti mig. Hann s.s. var hrifinn af mér, en það var einmitt svo erfitt fyrir hann, út af því að ég væri svo ömurleg persóna. (BTW, ég hef ekki hugmynd um hver þessi strákur var eða átti að vera, ekki fá neinar hugmyndir!) Það eina sem var til í stöðunni var þá bara að breyta mínum persónuleika, það var augljóst.

Í þriðja draumnum var ég heima hjá Eddu að hjálpa henni að pakka. Við þurftum að passa okkur að hafa ekki of hátt, þar sem Hrafnkell var ennþá sofandi. Við vorum að þrífa íbúðina og Edda var í óða önn við að opna skápa og taka úr þeim. Meðal annars var skápur sem var læstur með talnalás (sem virkaði eitthvað voða spes), en Edda einhvern vegin náði að opna hann. Ég man eftir að hafa séð blátt matarstell. Mamma og pabbi voru á leiðinni, en Edda var í fýlu við pabba út af því að hann bauðst til þess að passa Hrafnkel á meðan við pökkuðum. Það að hann vildi passa þýddi s.s. að pabbi væri að taka hlið Dodda í þessu öllu saman. Þegar mamma og pabbi svo komu var Hrafnkell vaknaður og Doddi sjálfur tók hann út í göngutúr, þannig að allt var í lagi á milli Eddu og pabba. Ég man líka að einhver minntist á að Gúa frænka ætlaði að kíkja við og hjálpa okkur, fyrst hún var nú í Reykjavík (sumt er alveg hrikalega random í draumum…).

Það sem allir draumarnir áttu sameiginlegt var svartur köttur sem var að þvælast alltaf í kringum mig. Þetta var voða sæt kisa og var voða góð við mig. Í morgun er ég samt búin að vera að afla mér upplýsingar um hvað draumar merkja (ekki að ég hafi mikla trú á því sem draumur.is segir) og að dreyma svart er merki um ólán, vinamissi, feigð, neikvæð öfl, tómarúm, lítilsvirðingu og vansæld. Það er fyrir illu að dreyma ketti, þeir merkja svikula elskhuga, öfund, illmælgi og alls kyns leiðindi. Svo þýðir svartklætt fólk (Edda var í öllu svörtu) sorgarboða.

Það er gæfumerki að dreyma foreldra sína. Að dreyma föður sinn er fyrir gæfu og velgengni, að dreyma móður sína er oftast fyrir góðu, boðar óvænt þægindi. Að dreyma Þorbjörgu er samt fyrir mótlæti, en Þorsteinn táknar hinsvegar áhrifamikinn vin sem er þér hliðhollur (kannski þess vegna sem kom svo í ljós að hann var ekkert að fara að passa). Að dreyma Eddu getur merkt ný viðhorf í fjölskyldumálum og að dreyma Þórð þýðir að það sé bjartara framundan. Áhyggjur í draumi eru fyrir gleðitíðindum og að vera einmana í draumi táknar annað hvort tímabundna fjárhagsörðuleika eða að vinir sópist að þér. Að vera staddur í eldhúsi er tákn um að góðar stundir séu framundan í faðmi vina þinna. Draumar um þrif eru merki um miklar breytingar, tímamót þar sem þú ert að vinna í þínum hjartans málum við að losa þig við neikvæðni úr lífinu og í kjölfarið sigrast á hindrunum sem verða á vegi þínum.

Að dreyma karlmann er tákn um þinn innri styrk. Finnist þér þú ganga um nakinn á almannafæri getur það verið fyrir veikindum (sem passar mjög vel þar sem ég er pínu veik og ég var ekki alveg nakin). Séu aðrir að gefa þér ráð (gaurinn) þarfnastu fljótlega hjálpar vina þinna við að komast úr klípu.

Já, það lítur út fyrir erfiða tíma að sumu leiti, en ég held að allt muni reddast. Svarti kötturinn hlýtur að vera það sem er í gangi núna (þar sem ég get ekki neitað því að hugsanir mínar eru oft hinumegin við sjóinn þessa dagana), fjölskyldan sýnir að þó þetta sé erfitt þá stöndum við saman og saman gerum við þetta betra. Mér finnst eins og draumurinn tákni mig ekki beint, þetta eru ekki mínir erfiðleikar, only by association. Ég veit ekki alveg hvað gaurinn þýðir, kannski er ég ómöguleg og ég þarf að vera aðgengilegri. I don’t know…

Og út af því að titil lagið er geggjað fallegt þá læt ég það fylgja með (Glee útgáfan).


MusicPlaylist
Music Playlist at MixPod.com

You with the sad eyes, don’t be discouraged!

Published in: on December 7, 2009 at 07:12  Comments (3)  

Awake

Þetta blog er farið að verða einhverskonar drauma dagbók. Það eina sem mér dettur í hug að skrifa hérna er það sem mig hefur dreymt nýlega, eitthvað sem situr sérstaklega í mér eftir nóttina.

Um daginn dreymdi mig að það var maí og ég ákvað að skreppa með mömmu og pabba til útlanda svona rétt fyrir prófin og áður en ég byrjaði að vinna aftur. Ég man ekki hvert við fórum, en við gistum á alveg ágætu hóteli. Svo allt í einu vorum við á Húsavík og hótelið var þar sem bílaleigan er. Ég skrapp niður út af því að ég þurfti að skreppa aðeins í sjoppu og ég skrapp í sjoppuna sem var í bílaleigunni fyrir langa löngu. Nema hún var alveg spegluð… Mig minnir að þar hafi ég hitt Erlu frá Hvalasafninu, og hún sagði mér hversu vel gengi með nýju sjálfboðaliðana og hvað hún hlakkaði til að ég byrjaði að vinna (sem var svo seinna þennan dag), og ég man sérstaklega eftir því að ég minnti sjálfa mig á að ég þyrfti að taka frí svo að ég gæti skroppið í lokaprófin. Þegar ég vaknaði þá var ég svo afskaplega fegin því að önnin væri að klárast, nema svo mundi ég að það er bara fyrri önnin sem er að klárast. Það er alveg heil önnur önn eftir þangað til að ég kemst aftur á safnið mitt.

Safnið virðist vera frekar framarlega í huga mér, því mig dreymdi líka annan draum um safnið í síðustu viku. Málið var að ég var að gera eitthvað verkefni með Elísabetu sem var með mér í HA, og við fórum til Húsavíkur til að klára það. Við löbbuðum niður á hafnarsvæðið og ég ætlaði að skreppa rétt aðeins að kíkja á safnið til að hitta nýju sjálfboðaliðina og Elvu systur mína, sem var einmitt líka að vinna þar. Þegar ég svo kom inn voru tveir útlendingar við afgreiðsluborðið og þrír Íslendingar, þ.á.m. Elva. Þetta var allt skemmtilegt fólk og svoleiðis, en ég man að ég vonaðist til þess að þessir Íslendingar ætluðu ekki að vera þarna lengi, því annars gæti ég ekki unnið þarna. En það var gaman að heimsækja þau, því ég þurfti aðeins að hjálpa þeim og svoleiðis, meira að segja Elva kunni ekki alveg handtökin þarna…

Svo í nótt dreymdi mig að ég var á einhverju ferðalagi með mömmu og pabba, við vorum að keyra um allt (í dökkum jeppa) og fórum líka í sund með Magna og Hrafnkeli. Svo man ég að ég kíkti á snúruna og sá að lakið mitt og rúmfötin mín voru brún. Alveg ógeðslega brún. Ég varð svo reið við mömmu og pabba að þau skildu setja rúmfötin mín með einhverju sem mundi lita þau í þvott. Og það versta var að þau skildu ekkert af hverju ég var svona reið út af þessu. Ég var í geggjaðri fílu þegar við héldum áfram að keyra. Svo enduðum við við einhvern bústað eða eitthvað hús og þar inni var alveg fullt af fólki sem var á leiðinni til Englands í háskóla. Mest samt krakkar sem voru með mér í Hafró, nema Villi formaður var þarna líka. Það var einhver leikur í gangi, þar sem fólk skipti sér upp í lið, og það voru flöskur á einum veggnum, sem liðsmenn áttu svo að festa poka við. Það eina var samt að flöskurnar tilheyrðu allar sínum skóla í UK og fólk mátti ekki setja poka utan um flösku sem var hærra á listanum en hæsti skólinn sem það komst inn í. T.d. voru Oxford og Cambridge efst á listanum og þeir sem komust inn í þá skóla máttu setja poka utan um allar flöskurnar. Ég og Villi vorum saman í liði og við bæði höfðum fengið inn í Cambridge, en þar sem ég var svolítið sein að átta mig á þessu öllu (ég var enn svo reið) þá er ég ekki alveg viss hvernig okkur gekk. Ég vaknaði áður en úrslitin voru kynnt.

Já, drauma heimurinn er svo sannarlega skemmtilegri en hið daglega líf. Annars er bara það í fréttum að við Inga rústuðum prófinu í dag, og okkur gekk bara mjög vel í prófinu í gær (og fólk sem fær lágt í þessum prófum eru bara frekar dens, þar sem prófin eru tekin á netinu og það er ekkert sem bannar fólki að hafa bækur og glósur fyrir framan sig). Ég er samt pínu stressuð yfir því að vera ekki stressuð fyrir lokaprófin. Ég hef bara örsjaldan orðið stressuð fyrir próf… Ég held samt að næsta önn verði aðeins meira skipulögð og minna hangs. Já, segjum það bara 🙂

Já og svo er jólaóskalistinn bara á sínum stað, löngu uppfærður.

Published in: on November 25, 2009 at 21:20  Comments (2)  

How To Save A Life

Mig er búið að dreyma svo mikið undanfarið og sumt er alveg eitthvað sem ég skil, ég veit alveg af hverju mig dreymir svona, en annað er alveg glatað. Ég er alveg á því að ef það er eitthvað sem maður man sérstaklega eftir í draumunum sínum, þá er það eitthvað táknrænt og það er alltaf svo margt sem ég man sérstaklega eftir úr draumunum mínum. Eins og á síðastliðni hálfri annarri viku hefur mig m.a. dreymt eitt svín og alveg hellings af börnum, sum voru mín (eins og ég eignaðist áttbura um daginn (þau samt bara birtust, það var engin fæðing í gangi)) og önnur voru bara þarna.

Mig dreymdi líka að ég og Edda værum heimilislausar og vorum að ráfa um sveitina austanmegin við Víkurskarðið, löbbuðum í móum og meðfram klettum og enduðum í gróðurhúsi sem var líka kirkja. Við tíndum tómata og töluðum við prestinn og annað fólk sem var líka heimilislaust.

Svo var í öðrum draumi þar sem ég stökk út í höfnina á Húsavík til að ná í eitthvað, man ekki alveg, en a.m.k. synti ég eitthvað um þarna og þegar ég kom upp til að anda straukst ég upp við eitthvað, sem var svo dauður hvalur. Þegar pabbi svo spurði mig hvað þetta rauða væri í hárinu á mér þá svaraði ég ósköp rólega “æi þetta er bara blóð úr slátraða hvalnum.” Það var s.s. hvalveiði útgerð á Húsavík.

Í öðrum draumi dreymdi mig að gaurinn sem að Sigrún hafði áhuga á reyndi að moka mig út úr herberginu mínu heima í sveitinni, nema það að hann rak skófluna í gegnum rúðuna þar sem maður opnar hana og glugginn með öllu viðardæminu losnaði frá veggnum. Ég reyndi mitt besta til að fá gaurinn til að hætta að hreyfa skófluna svo að ég gæti hlaupið út og náð í kíttibyssuna hans pabba og fest gluggann, en helvítis gaurinn kippti skóflunni út og hálft þakið hrundi. Ég varð svo reyð við gaurinn að ég öskraði á helvítis fíflið. Svo ætlaði ég að hringja í pabba og segja honum frá þessu, en þá bankaði eitthvað fólk heima þannig að ég fór og svaraði hurðinni og var frekar pissí við þau. Aumingja fólkið var alveg miður sín.

Já, draumar eru áhugaverðir…

Annað í fréttum, ég fer til augnlæknis í næstu viku og ég hreinlega get ekki beðið. Mér finnst ég vera farin að sjá svo illa og ég tek sérstaklega eftir því þegar ég er að keyra og leita eftir skiltum, bara til þess að komast að því að ég bara get engan veginn lesið á þau. Enda hef ég ekki farið til augnlæknis í hvað, þrjú ár? Fjögur? Það er a.m.k. langt síðan. En í kjölfarið þá er ég mikið búin að velta því fyrir mér hvort að ég eigi að fá mér ný gleraugu. Ég er búin að ákveða að fara að nota linsur oftar, en ég nota þær aðallega þegar ég fer á djammið, það er alveg merkilegt hversu mikið þægilegra er að vera með svoleiðis þegar maður hefur smá áfengi við hönd. Mig langar samt pínu til að breyta aðeins til, enda líka eru gjarðirnar sem ég er með núna farnar að verða pínu lausar og leiðinlegar. Svo hugsa ég líka að ef ég fer ekki til DK um jólin, þá bóki ég mér tíma í klippingu og litun fyrir jól.

Published in: on November 4, 2009 at 22:10  Comments (1)  

To Sleep, Perchance To Dream

Þetta er það sem mig dreymdi:

 • Ég var heima, sem var stofan hjá Bob og Juliet í Hafró.
 • Valdís, Magni og Hartmann voru þar.
 • Ég fór með mömmu og Eddu í fangelsið út af því að…
 • Alvilda frænka hafði verið sökuð um morðið á systur sinni, við ætluðum að kíkja á hana.
 • Crazy kona hafði sakað hana um morðið vegna þess að hún var abbó.
 • Fanglesið tók barn af Crazy, en þetta var barn sem Elva hafði gefið upp til ættleiðingar.
 • Mamma og Edda fengu að sjá barnið, ég sá það, en ég vildi ekki vera með.
 • Ég fór í gegnum sms-in mín og fannst undarlegt að sjá nafn sem ég var búin að eyða úr símanum mínum. Svo var líka bara fullt af undarlegum hlutum í inboxinu mínu.
 • Ég fór út, það var mið nótt, og fór einhverja moldar/drullu leið og endaði upp í bústað, en eitthvað var þetta ekki eins og það átti að vera, þannig að ég fór til baka og byrjaði aftur. Endaði aftur upp í bústað, sem var alveg fínt.
 • Inga og Snæfríður höfðu verið sofandi fyrst þegar ég kom þangað, en þær voru nývaknaðar þegar ég kom í seinna skiptið. Þær áttu von á mér held ég.
 • Það var svartu labrador hvolpur að vesenast í kringum mig.
 • Stelpurnar gáfu mér köku. Ég held að ég hafi verið að flýja. Veit ekki alveg frá hverju…

Merkilegt…

Published in: on October 23, 2009 at 12:46  Comments (2)  

Sleeping to Dream

Mér er illt í hálsinum. Ekki svona ‘hálsbólgu’ illt, heldur er eins og það sé eitthvað að safnast saman við bringubeinið. Ég hef ekki hugmynd um hvað það heitir á íslensku, en Grey’s Anatomy hefur kennt mér að þetta svæði er kallað esophagus á ensku. Þetta er óþægilegt. Ég er búin að prufa að borða eitthvað og drekka eitthvað, en mér finnst bara pínu eins og það sé að versna. Þetta er líka búið að vera að pirra mig í svolítið langan tíma, eða sko, síðan… jah ég veit ekki, kannski svona um 2 leitið í dag. Æji ég veit það ekki. Þetta er bara orðið mjög pirrandi núna.

Á morgun ætla ég að elda ömmu kjúkling, þar sem Óli Ingubróðir heimtaði kvöldmat og það er komið að mér að elda. Á morgun er líka laugardagur, sem þýðir nammidagur, sem þýðir að ég verð mjög hamingjusöm, af því að mig er búið að langa í súkkulaði alla helvítis vikuna, og þar sem ég er ekki búin að borða nammi síðan helgina fyrir síðustu (og það var það eina sem ég gat borðað í heilan dag, ég var það þunn) þá finnst mér ég alveg eiga smá nammi skilið. Ekki satt?

(Smá side-note hér, alltaf finnst mér jafn gaman þegar iTunes er á shuffle og gamla FER103 verkefnið mitt fer af stað, þar sem ég babla á dönsku um gamla bæinn á Akureyri við undirspil Mika. Vekur upp skemmtilegar minningar.)

Jól. Það er miður október. Það er enginn farinn að skreyta, sem betur fer, en mér finnst eins og margir séu farnir að hugsa út í gjafir. Ég geri ráð fyrir að maður hafi einn og hálfan mánuð til að finna jólagjafir handa útlendingunum. Tvo mánuði fyrir local fólkið. Ég barasta fíla ekki jólin. Fínt að koma saman með fjölskyldunni og borða góðan mat, en mér finnst bara eins og jólin séu ekki alvöru eftir að fjölskyldan fór og dreifði sér út um allan heim. Jól eru hamborgarhryggur og brúnaðar kartöflur, stelpurnar ganga frá eftir matinn, Trivial Pursuit (eða annað borðspil). Jú, það er kannski möguleiki að fá svoleiðis jól ef maður treður sér inn hjá Valdísi og Tryggva (jú, maður gæti líka beðið fallega), en það er sjaldan sem ég sakna systra minna jafn mikið og um jólin. Ég er samt pínu hræsnari (vá asnalegt orð) þar sem ég er að plana að eyða jólunum einhverstaðar langt langt í burtu eftir tvö ár. Enn sem komið er, amk. En ég ætlaði líka að eyða síðustu jólum út í heimi…

Jæja, ég hef ekkert voða merkilegt að skrifa, nema jú, I’m totally kicking my sisters’ asses in blogging!! Face! (Út af því að ég get engan vegin sagt þetta á íslensku… :P)

Published in: on October 16, 2009 at 23:13  Comments (5)  

The Dork Night

Mig dreymdi svo frábæran draum í nótt að ég fór tvisvar aftur að sofa eftir að vekjaraklukkan hringdi í morgun. Ég man að vísu ekki alveg hvað var að gerast, ég var að bjarga einhverju samt, eða að reyna að halda öllu góðu, en ég man meira hverjir voru í draumnum, og jafnvel þó svo að allt væri að fara til fjandans, þá samt leið mér svo vel, því að það voru allir með mér, sumir voru stærra hlutverk en aðrir. Ég man að Hrafnkell og Magni voru eitthvað að hjálpa mér, eða þeir amk voru þarna, og það þurfti að passa að Hrafnkell væri ekki bara fyrir, en samt, hann var góður. Það var bara svo gott í draumaheiminum í nótt, vona bara að ég komist þangað aftur.

Var á fullu *hóst* að læra fyrir DET próf (pínu heimspekilegur áfangi) sem var á mánudaginn, náði vonandi að klóra mig í gegnum það. Ég meina, þetta er heimspeki, hvernig fellur maður í því (núna fell ég pottþétt, út af því að ég sagði þetta…). Nei nei ég næ þessu alveg… En já, svo var próf í hljóðfræði í dag, það var rétt slefað undir 9, þannig að ég get ekki verið annað en ánægð. Svo er annað próf á morgun, hef ekki miklar áhyggjur af því, neinei. Það er mjög hentugt að taka próf á netinu sko…

Get samt ekki sagt annað en að ég verði frekar fegin þegar síðasta prófið er búið. Ég viðurkenni alveg að þessi prófatíð var smá spark í rassinn.

Æji, ég hef ekkert að segja í kvöld. Eða amk er ég of upptekin við annað til að muna það. (Já, this lady is multitasking, yeah!)

Published in: on October 13, 2009 at 23:22  Comments (4)  

Tongue-Tied

Orðið á götunni er að facebook hafi byrlað blogginu eitur og það liggi nú nær dauða en lífi. Þess vegna ákvað ég í örvæntingu minni að reyna að blása lífi í vesalings bloggið mitt, þar sem mér þykir nú ósköp vænt um það þó svo að ég heimsæki ekki oft. Þannig er það nefnilega með mig, mér þykir vænt um marga en ég einhvern vegin gleymi að hafa samband. Einstaka ‘like’ eða vesæl athugasemd á facebook er það eina sem tengir mig við umheiminn. Hvar væri ég án facebook? Já, það er nú góð spurning.

Það er svo langt síðan ég bloggaði seinast að ég man ekki hvert ég var komin í lífinu. Ekki það að ég muni það hvort eð er, ég er eitthvað svo glötuð. Mér finnst ég vera stödd í limbo, ég er hvorki hér né þar. En reynum nú samt að púsla þessu saman, það getur verið að einhver þarna úti hafi áhuga á því sem ég er að gera. Ég veit að ég hef áhuga á því sem aðrir eru að gera, hvort sem það sé einhver sem ég talaði tvisvar við í MA eða vinkonan sem var tekin haldi af kærastanum og dregin austur á land (já Herdís, ég er að tala um þig). Allir aðrir eru að lifa lífinu og ég geri mitt besta við að lifa í gegnum þau. Sorglegt.

Ég er komin suður. Bjó með ókunnugri manneskju í fjórar vikur, eða þangað til að sú manneskja bauðst til þess að skipta við Ingu þegar ég sagði henni að við höfðum sótt um íbúð saman en vorum of seinar. Þannig að Inga er flutt niður til mín, við erum búnar að koma okkur mjög vel fyrir í þessari litlu íbúð, ég er búin að koma mér þokkalega vel fyrir í herberginu mínu (þó svo að ég mætti nú alveg fara að hengja upp hluti á veggi eða eitthvað. Og fá mér gardínur. Já…) Ég á oft erfitt með að koma mér vel fyrir. Það er alltaf þetta með að þurfa að flytja heim á sumrin, og þó svo að ég þurfi þess ekki næsta sumar, þá er ég svo gott sem búin að ákveða að fara heim í sveitina góðu. Ég var nefnilega nánast grátbeðin um að koma aftur á safnið, og ég eiginlega sé ekki tilganginn í því að finna eitthvað nýtt starf (í kreppunni sko) og þurfa að byrja nánast upp á nýtt með taxta og annað stöff. Svo var mér líka boðið smá stöðuhækkun, þ.e. einhverja auka ábyrgð (jiii) sem þ.a.l. hækkar launin mín. Ekki fer ég að neita því. Fyrir utan það að mér þykir mjög vænt um safnið mitt og fólkið sem maður kynnist þar. Ég á ennþá erfitt með því að trúa því hversu heppin ég var með vinnufélaga síðasta sumar.

Skólinn gengur bara… já hann gengur. Ég komst að því um seinustu helgi að þetta er ekki alveg jafn straight forward og ég hafði gert ráð fyrir. Ég fattaði þetta þegar ég byrjaði að læra fyrir miðannapróf. Prófið gekk samt bara alveg ágætlega, ég er svona alveg smack in the middle of the norm, þannig að það er gott. Svo er próf á mánudag, þriðjudag og miðvikudag, þó svo að það sé svokallað upplestrarfrí alla næstu viku. En jújú, maður hefur sig í þetta. Eða svona reynir að læra, það er ekki að ganga neitt rosalega vel. Það er kannski þess vegna sem ég fann þessa nennu til að blogga í kvöld. Út af því að ég ætlaði að vera að læra. En ég er þó amk ekki að drekka mig fulla af bjór á Októberfest. Sem er vandamál alveg í sínum flokki.

Helsta vandamálið hjá okkur Ingu? Við nennum ekki. Þ.e. við nennum ekki félagslífi. Við viljum, við bara nennum ekki. Mér persónulega finnst eins og það sé ekkert að gerast hvort eð er, en þegar ég fer yfir öll tækifærin síðan við komum suður þá sé ég að það er ALLTAF eitthvað að gerast. Við bara nennum ekki. Reyndar er hluti af ástæðunni sú að við drekkum ekki bjór, sem er yfirleitt ódýrasti (jafnvel ókeypis) drykkurinn í boði og ég einhvern vegin vil ekki eyða mínum pening í rándýra drykki svo að ég geti verið jafn full og allir hinir. Vissulega gæti ég verið edrú, en hvað er gaman við það? Sem fyrrverandi formaður GLÍMA þá segi ég: það er EKKERT gaman við það að vera eina edrú manneskjan á djamminu.

Nóg í bili? Ég held það nú… Hjálpið svo til við að bjarga blogginu og setjið eina stutta athugasemd 😉 Á meðan fer ég og les mér meira til um Plato!

Published in: on October 10, 2009 at 22:43  Comments (7)  

Þúsund sinnum segðu já

Ég var að fara yfir titlana hjá mér og setja inn flytjendur á Titla síðuna, ég komst að því að ég hef verið frekar upptekin við Muse upp á síðkastið, eða amk þegar ég blogga.

Ein vika þangað til skólinn byrjar. Eftir fjóra daga verð ég á leiðini suður. Þrír vinnudagar eftir. Ein hvalaskoðunarferð eftir (vonandi).

Fyrir helgina fékk ég gríðarlegt kvíðakast þegar ég ætlaði að fara að sofa, það var mjög óþægilegt. Mér finnst líka eins og hausinn á mér sé alveg yfirfullur af hlutum sem ég þarf að gera, þarf að klára, muna eftir. Eins og venjulega þegar mér líður svoleiðis þá gríp ég í eina stílabók eða eitthvað blað og byrja að skrifa niður, flokka atriðin (fyrir vinnu, skóla, flutning, pappírsvinna), ákveð hvenær ég hef tíma til að gera hlutina, skrifa niður símanúmer. Þetta er eina leiðin fyrir mig til að komast yfir þessa yfirþyrmandi tilfinningu að ég sé að verða of sein að gera þetta og hitt, eða ég er svo viss um að ég gleymi að gera eitthvað (sem gerist voða oft). Sko, ég kann alveg að vera skipulögð þegar ég þarf á því að halda.

Ég er búin að skrifa niður það sem ég vil tala um við Erlu í óformlega staffaviðtalinu á fimmtudaginn, ég er búin að hringja í bankann og biðja um nýtt debitkort (ég gleymdi mínu á Ak á laugardaginn og svo rennur það út í september hvort eð er), þarf bara að sækja það á föstudaginn. Ég er líka búin að skrifa niður hvað ég tek með mér á föstudaginn og hvað m&p eiga að taka með sér þegar þau koma suður. Ég hef það samt á tilfinningunni að jafnvel þó ég sé búin að útskýra oft og mörgum sinnum að ég ætli ekki að taka mikið með mér, að þau haldi samt að ég ætli að taka meirihlutann með mér. Þau kannski átta sig á því á föstudaginn þegar megnið af dótinu mínu verður ennþá heima…

Mamma líka áttaði sig loksins á því um helgina hvernig vaktaplanið mitt virkar, en svo auðvitað þurfti ég að rústa því með því að tilkynna að ég er að vinna fjóra daga í röð (í staðin fyrir þessa venjulegu tvo í byrjun vikunar). Pabbi er ekki enn búinn að ná þessu. Reyndar verð ég að nefna að þau skildu ekkert í vaktaplaninu fyrsta árið mitt (vinna þrjá daga, frí þrjá daga), og í fyrra þegar ég hengdi dagatalið mitt upp á ísskápinn, þá samt voru þau ekki að ná því hvenær ég væri í fríi og hvenær ég væri að vinna. Þau voru samt algjörlega búin að ná þrír dagar/þrír dagar núna í sumar, too bad að það var búið að breyta vaktaplaninu…

Ég er pínu stressuð, en mér líður betur þegar ég hlusta á Þúsund sinnum segðu já, með Togga og Ourlives, og I’m Yours, með Jason Mraz.

P.S. – Hver er búin að vera viðbjóðslega dugleg að blogga í þessum mánuði? Fimm blogg eru miklar framfarir fyrir sumarið 😉